Boxer

Boxer hundar eru einstakir í röð hunda. Það er einfaldlega eitthvað við þá sem gerir það að verkum að þegar þú hefur eignast einn - og þig langar í annan - kemur ekki annað til greina en að eiga Boxer út ævina. Það er margt sem hjálpast að við að gera þá svona einstaka.

Geðslag og karakter
Er mikilvægara öllu öðru við Boxerinn. Hann er í eðli sínu varðhundur, vökull, göfugur og sjálfsöruggur. Með fjölskyldu og vinum er hann leikglaður en börnum sýnir hann jafnaðargeð og þolinmæði. Hann tekur ókunnugum af varúð, sýnir forvitni en framar öllu óttalaust hugrekki sé honum eða fjölskyldu hans ógnað. Hins vegar fagnar hann heilshugar vinahótum sem veitt eru af einlægni. Gáfur hans, ljúft trygglyndi og velþóknun á réttlátum aga gera Boxer að eftirsóknarverðum félaga.

Umhirða og heilsa.
Boxer er með snöggan fíngerðan feld sem hann á auðvelt með að halda hreinum og snyrtilegum án mikillar hjálpar frá þér. Það er got að strjúka yfir feldinn vikulega með gúmmí bursta og einstaka bað gerir honum líka gott.
Fullorðinn Boxer er tilbúinn í endalausa göngutúra og lausahlaup, hinsvegar er meðalvegurinn alltaf bestur og sirka 40 mínútna lausahlaup á dag ættu að nægja, e.t.v 1-1.5 klst. um helgar. Hins vegar ætti aldrei að hreyfa Boxer hvolpa mikið fyrsta árið, frjáls leikur á afgirtum garði er meira en nóg ungum hvolpi með stöku stuttum göngutúrum til að taumvenja hann og umhverfisþjálfa í leiðinni. Heilsufar Boxer hunda er almennt gott en sumir sjúkdómar virðast algengari í tegundinni en aðrir. Húðvandamál geta hrjáð stöku hunda en þau eru algengari í hvítum hundum. Hjartagallar geta komið upp og virðast vera algengari innan sumra ætta en annarra. Mjaðmalos er nokkuð sem taka þarf tillit til við ræktun tegundarinnar þó það verði að segjast eins og er að það virðist ekki hrjá Boxerinn mikið miðað við margar aðrar tegundir þar sem meirihluti þyngdar hans hvílir á framfótum. Hvítir Boxer hvolpar fæðast alltaf öðru hvoru og eru hvorki viðurkenndir til ræktunar né sýninga. Þeir eru hins vegar ekki á nokkurn hátt verri sem heimilis- eða vinnuhundar. Láttu ekki óvandaða "ræktendur" telja þér trú um að hvítur Boxer sé sjaldgæfur eða verðmeiri en litaður Boxer.

Hlýðni og umhverfis þjálfun.
Það er auðvelt að kenna Boxer hundum, þeir eru forvitnir og áhugasamir og afar tilbúnir til að þóknast þér. Hins vegar vilja þeir gjarnan vita að það sé einhver tilgangur með því sem verið er að kenna þeim. Takist það ekki nógu vel eða ef þjálfun er gerð of leiðinleg eru þeir fljótir að ákveða að tíma þeirra sé betur varið í eitthvað annað og skemmtilegra! Þess vegna er best að hafa æfingarnar stuttar og þá frekar oftar og gæta þess að hafa allt á jákvæðu nótunum og ekki spillir að hafa dót til að leika með inn á milli æfinga og í lok þeirra. Þeir eru duglegir spor hundar og finnst það mjög skemmtileg vinna, þeim finnst gaman að draga t.d hjól sem þú situr á og þeim finnst hundafimi snilld. Hlýðni þjálfun ætti að byrja snemma og þess ætti að gæta að umhverfisþjálfa Boxer vel strax frá unga aldri. Hann ætti að fá að kynnast dýrum af öðrum tegundum og umgangast aðra hunda af öllum stærðum og gerðum. Boxer á það til að lenda í útistöðum við aðra hunda, þar sem þeir virka oft ógnandi með sitt krumpaða trýni. Einnig leika Boxer hundar sér oft grófar og með meiri hljóðum en aðrir hundar sem verður til þess að þeir eru misskildir og taldir vera að snapa slagsmál. Þess vegna ætti að leyfa þeim að hitta hunda af öðrum tegundum svo þeir geti sem best lært táknmál hunda og gert sig betur skiljanlega.
Þeir hafa mikla þörf fyrir nærveru og samskipti við fólk. Þess vegna ætti ekki að skilja þá lengi eftir eina. Það er tilvalið að búrvenja þá strax sem hvolpa, þá þarf ekki að hafa áhyggjur af því að hvolpurinn fari sér að voða eða skemmi eitthvað á meðan enginn er heima eða á nóttunni. Einnig verður auðveldara að gera þá húshreina.

Almennt.
Það sem kom mér mest á óvart þegar ég eignaðist minn fyrsta Boxer var hversu ljúfur hann er. Síðan hafa tveir bæst í hópinn og allir eiga þeir það sameiginlegt að vita fátt betra en að kúra með fólkinu sínu upp í sófa, helst vilja þeir skríða alla leið í fangið á manni og leggja höfuðið í hálsakotið. Þeir eru allir mjög háðir mér og þar sem ég er vilja þeir vera líka. Ef þú ert ekki fyrir þessa miklu nálægð við hunda þá er Boxer ekki rétta tegundin fyrir þig því þeir þrífast á samskiptum og nærveru við fólkið sitt. Þeir hafa gaman af börnum en eru ekki frekar en aðrir hundar barnapíur. Að kenna barni og hundi gagnkvæma virðingu er lykilatriði til að sambúðin gangi vel. Á mínu heimili eru tvö börn og allur leikur á milli þeirra og hundanna fer fram undir eftirliti. Börnin fá heldur aldrei að fara ein út með hundana i göngutúr. Það geta alltaf komið upp aðstæður sem börnin ráða ekki við, t.d þarf ekki annað til en að þau mæti lausum hundi sem slæst við þeirra hund, og þau geta lent illilega á milli. Verðir þú einhvern tíma þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast Boxer óska ég þér velfarnaðar og vona að þú sinnir honum af umhyggju og áhuga ævi hans á enda.


 - Hundarnir okkar -

Flettingar í dag: 100
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 433657
Samtals gestir: 89378
Tölur uppfærðar: 1.4.2020 12:14:47