Um okkur

Að Hagalíns ræktun stendur öll fjölskyldan að Háeyrarvöllum 52 á einn eða annan hátt. Í fjölskyldunni eru ég (Unnur), Elli maðurinn minn og synir okkar þrír fæddir ´94,´98 og ´08. Mest öll umhirða hundanna er á minni ábyrgð enda eru hundarnir aðallega mitt áhugamál. Að sjálfsögðu koma svo hinir fjölskyldu meðlimirnir að umhirðu hundanna þar eð þeir eru jú gæludýr okkar allra.
Árið ´94 eignuðumst við hana Tátu sem er Írsk Setter - Golden Retriver blanda. Árið ´00 bættist svo Dimmalimm í hópinn en hana keyptum við af Bjarkeyjar ræktun. Eftir það varð ekki aftur snúið, ég heillaðist algerlega af boxernum og varð fljótlega ljóst að það yrði alltaf boxer á mínu heimili. Ég byrjaði að sýna Dimmulimm um leið og hún hafði aldur til og varð strax bitin af sýningar bakteríunni. Smá saman fór hugurinn að beinast að ræktun og velferð tegundarinnar og upp úr því tókum við þá ákvörðun að flytja inn nýtt blóð og hefja okkar eigin ræktun. Í dag er staðan sú að til okkar eru komin tík og hundur frá Bretlandi. Á heimilinu eru því fjórir hundar.

Allir okkar hundar búa inni á heimilinu og óneitanlega er alltaf líf og fjör, en þannig viljum við hafa það og getum ekki hugsað okkur að hafa það öðruvísi, enda eru hundarnir órjúfanlegur hluti af fjölskyldunni. Að okkar mati hafa bæði börn og hundar óskaplega gott af sambúðinni enda er þeim öllum hollt að læra að umgangast hvert annað af tillitsemi.
Okkar markmið er að rækta fallega og heilbrigða hunda með góða skapgerð sem henta vel sem heimilis hundar og geta náð góðum árangri á sýningum. Öll okkar ræktunardýr eru sýnd, mjaðma mynduð og fara í gegnum skapgerðar mat HRFÍ.

Hvolpar frá okkur alast upp á heimilinu þar sem þeir venjast börnum og venjulegu heimilislífi. Við leggjum mikla áherslu á að þeir kynnist sem flestum hljóðum og hlutum í umhverfi þeirra svo það sé fátt sem komi þeim á óvart á nýju heimili.
Hvolparnir eru afhentir heilbrigðis skoðaðir, ormahreinsaðir, bólusettir og örmerktir með ættbók frá Hundaræktarfélagi Íslands. Þeim fylgja einnig leiðbeiningar um mataræði og aðra umhirðu. Við leggjum mikla áherslu á að vera í góðu sambandi við hvolpa kaupendur okkar, eftir að hvolparnir eru farnir að heiman og erum alltaf tilbúin að aðstoða og veita ráð eftir bestu getu.


Flettingar í dag: 88
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 433645
Samtals gestir: 89378
Tölur uppfærðar: 1.4.2020 10:46:31